Hótel Rangá státar af glæsilegustu og fullkomnustu aðstöðu landsins til stjörnuskoðunar. Um 150 metra frá hótelinu er hús með opnanlegu þaki sem getur hýst um 25 gesti í einu. Í húsinu eru tveir hágæða tölvustýrðir stjörnusjónaukar — 14 tommu spegilsjónauki frá Celestron og 160mm lithreinn linsusjónauki frá TEC — sem nota má til að skoða himininn eða taka stjörnuljósmyndir við bestu aðstæður, fjarri allri truflandi ljósmengun.
Sjónaukarnir eru stórir og geta því sýnt ótrúleg smáatriði á yfirborði tunglsins, ský í lofthjúpi Júpíters, hringa Satúrnusar og landslag á Mars. Með sjónaukunum er líka hægt að skoða fæðingarstaði stjarna, stjörnuþyrpingar og vetrarbrautir í milljóna ljósára fjarlægð.
Á sumrin eru sjónaukarnir notaðir til að skoða stjörnuna okkar, sjálfa sólina. Á henni sjást sólblettir, virk svæði á sólinni sem tengjast myndun norðurljósa, sem og sólgos og fleira.