Suðurland er sannkölluð náttúruperla, stórbrotin náttúra frá sjávar til sveita gerir svæðið að vinsælum ferðamannastað og náttúruöflin sem hafa séð fyrir óvæntum uppákomum síðastliðin ár hafa gert þennan landshluta að enn vinsælli áningarstað.
Ógrynni fallegra svæða eins og Þórsmörk, Syðra Fjallabak, Seljalandsfoss, Hekla, Þjórsárdalur, Gullfoss, Geysir, Þingvellir og Dyrhólaey er skemmtilegt að skoða og ekki má gleyma Fljótshlíðinni þar sem marga sögufræga staði er að finna og lengi má áfram telja. Stutt er í vinsælar gönguleiðir og geta allir ferðamenn fundið eitthvað við sitt hæfi allan ársins hring, hvort sem um er að ræða menningu, listir eða útivist.
AFÞREYING Á SUÐURLANDI
Hótel Rangá er vel staðsett í aðeins klukkustundar akstursfjarlægð frá Reykjavík og þaðan er einnig stutt í allar helstu náttúruperlur landssvæðisins. Þar er að finna afar fjölbreytta afþreyingu, hvort sem áherslan er lögð á náttúru eða menningu er af nógu af taka. Einnig er fjölbreytt úrval skipulagðra ferða í boði.
Eftirfarandi upptalning er ekki tæmandi. Jeppaferðir, vélsleðaferðir, fuglaskoðun, gönguferðir, fljótaferðir (rafting), laxveiði, jöklaferðir, hellaskoðun, golf, köfun, hestaferðir, útsýnisferðir með flugvél eða þyrlu og margt fleira.